Ferill 116. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.





123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 116 — 116. mál.



Frumvarp til laga



um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Nú hefur starfsmaður lögaðila gefið, lofað eða boðið opinberum starfsmanni gjöf eða annan ávinning til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans í því skyni að ná eða halda viðskiptum eða öðrum ótilhlýðilegum ávinningi í þágu lögaðilans og er þá heimilt að gera lögaðilanum fésekt. Sama gildir ef slíku er beint að erlendum opinberum starfsmanni eða starfsmanni opinberrar alþjóðastofnunar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta fylgir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum og eru frumvörpin flutt til að unnt verði að fullgilda samning um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum, sem undirritaður var í París 17. desember 1997.
    Auk breytinga á almennum hegningarlögum er nauðsynlegt að með lögum verði lögð ábyrgð á lögaðila vegna mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna. Tillögur þar að lútandi er að finna í þessu frumvarpi. Í athugasemdum með fyrrgreindu frumvarpi til breyt­inga á almennum hegningarlögum er efni mútusamningsins rakið í helstu atriðum og fjallað um hvaða breytingar á lögum verði að gera til að unnt sé að fullgilda samninginn. Verður látið við það sitja að vísa til þeirrar umfjöllunar um önnur efni en þau sem varðar ábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslna til erlendra opinberra starfsmanna.
    Samkvæmt 2. gr. mútusamningsins skal samningsaðili, í samræmi við meginreglur eigin laga, gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að lögaðilar verði ábyrgir vegna mútu­greiðslu til erlends opinbers starfsmanns. Þetta felur ekki í sér skuldbindingu til að lögfesta reglur um refsiábyrgð lögaðila, ef slíka heimild er ekki að finna í lögum samningsríkis. Þá skal samningsaðili hins vegar sjá til þess að við mútugreiðslum liggi virk, hæfileg og letjandi viðurlög, þar á meðal fjárhagsviðurlög, sbr. 2. mgr. 3. gr.
    Til að laga íslenskan rétt að mútusamningnum þykir heppilegast og í sem bestu samræmi við markmið samningsins að lögð verði refsiábyrgð á lögaðila þegar brot er framið í hans þágu. Má finna viðurlög af því tagi í lögum sem mæla fyrir um heimild til leggja fésektir á lögaðila við tilteknar aðstæður. Kemur slík refsiábyrgð einkum til álita þegar starfsmaður hefur framið refsivert brot í þágu lögaðilans.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögaðila verði gerðar sektir ef starfsmaður hans hefur gefið, lofað eða boðið opinberum starfsmanni gjafir eða annan ávinning til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans. Þetta verður þó að vera gert í því skyni að lögaðilinn nái eða haldi viðskiptum eða öðrum ótilhlýðilegum ávinningi. Þykir ekki ástæða til að ganga lengra að því leyti, enda má almennt gera ráð fyrir að slíkar greiðslur í þágu lögaðila hafi viðskiptalegan tilgang, auk þess sem mútusamning­urinn er bundinn við greiðslur af því tagi. Hins vegar er lagt til að refsiábyrgð verði lögð á lögaðila hvort heldur mútugreiðslu er beint að innlendum eða erlendum opinberum starfs­manni eða starfsmanni opinberrar alþjóðastofnunar. Þótt mútusamningurinn taki ekki til innlendra opinberra starfsmanna þykir refsiverndin ekki eiga að vera lakari þegar þeir eiga í hlut. Þá er frumvarpið reist á því að viðkomandi starfsmaður hafi sjáfur bakað sér refsi­ábyrgð skv. 109. gr. almennra hegningarlaga, svo sem lagt er til að því ákvæði verði breytt með frumvarpi því sem flutt er samhliða þessu frumvarpi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um refsiábyrgð
lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns.

    Frumvarp þetta fylgir frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum en frumvörpin eru flutt til að unnt verði að fullgilda samning um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.